Maður slasaðist alvarlega eftir að hann henti sér niður af svölum í rúmenska þinginu. Hann var að mótmæla niðurskurði í ríkisútgjöldum.
Atburðurinn átti sér stað þegar þingmenn voru að búa sig undir að greiða atkvæði. Maðurinn starfar við ríkissjónvarpið í Rúmeníu. Hann steig upp á handrið á svölunum og henti sér síðan niður. Fallið var um sjö metrar. Hann er alvarlega slasaður, en ekki í lífshættu.
Emil Boc, forsætisráðherra Rúmeníu, var í ræðustól þegar maðurinn lét sig falla. Hann flýtir sér að huga að manninum ásamt fleiri þingmönnum.
Maðurinn, sem er tveggja barna faðir, var í bol með áletruninni: „Þið vegið að framtíð barna okkar. Þið seljið okkur“.
Þingfundi var frestað í um klukkustund, en hélt síðan áfram. Ríkisstjórnarflokkanir höfðu sigur í atkvæðagreiðslunni eftir að stjórnarandstaðan gekk af fundi.
Landsframleiðsla í Rúmeníu dróst saman um 7% í fyrra og neyddust stjórnvöld til að óska eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og grípa til harðra aðgerða í ríkisfjármálum.