Kristnir menn í Írak óttast árásir

Kristnir menn í Írak hafa hægt um sig um þessi jól, en árásir á kristið fólk hafa verið tíðar í landinu að undanförnu.

Það er ekki mikið umstang meðal kristinna í Írak um jólin. Leiðtogar kirkjunnar hafa beint því til fólks að þeir reyni að láta lítið á sér bera. Þetta eru viðbrögð kirkjunnar við árásum sem kristnir menn hafa mátt þola að undanförnu.

Í lok október réðust byssumenn inn í kirkju í Írak og tóku kirkjugesti í gíslingu. Eftir að öryggislögregla réðist inn í kirkjuna kom til bardaga sem lauk með því að meira en 50 létu lífið.

„Ég mun ekki fagna um jólin vegna þess að eiginmaður minn er látinn. Hvers vegna ætti ég að fagna? Við voru vön að fagna saman og fara saman í búðir. Hann verður ekki hér lengur svo ég mun ekki fagna jólunum. Ég mun biðja fyrir honum og biðja um frið í landinu,“ sagði Hafia Bashir, sem missti mann sinn í árásinni.

Sumir kristnir menn í Írak hafa gripið til þess ráðs að flýja til Kúrda-héraðanna í norðurhluta landsins og enn aðrir hafa farið til Jórdaníu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert