Fleiri þúsund manns eru strandaglópar víðsvegar um Evrópu vegna veðurs. Öllum flugum, alls um 670 talsins, um aðalflugvöll Frakklands var aflýst fyrr í dag vegna snjóa sem aftur hefur áhrif á ferðaáætlanir margra annarra í nágrannalöndunum.
Margir þurfa að halda til í lestum sem hafa stöðvast vegna veðursins. Útlit er fyrir að margir þurfi að eyða aðfangadagskvöldi fjarri vinum og ættingjum, á flugvöllum, í lestum, ferjum eða á biðstöðvum.
Ekki nóg með að veðrið sé að setja strik í reikninginn heldur hefur verkfall starfsfólks í verksmiðju einni er framleiðir afísingarefni sem notað er á flugvelli haft sín áhrif.
Rauði krossinn í Frakklandi hefur látið til sín taka í dag til að gera vist fólks sem ekki kemst leiðar sinnar bærilegri. Hafa sjálfboðaliðar dreift teppum og gefið fólki heita drykki.
Í Belgíu eru snjóþyngsli mikil og umferðarteppur víða á vegum. Þá hefur flugvöllum í Þýskalandi verið lokað, m.a. í Dusseldorf.