Sannkölluð jólabörn komin heim

Frönsk móðir kyssir barn sitt frá Haítí sem hún var …
Frönsk móðir kyssir barn sitt frá Haítí sem hún var að ættleiða. Reuters

Flugvél með 84 börnum frá Haítí innanborðs lenti í Frakklandi í morgun en börnin hafa verið ættleidd til franskra foreldra. Þetta er í annað sinn sem vél á vegum franska ríkisins sækir börn til Haítí sem varð illa úti í jarðskjálftum fyrr á árinu. Sú fyrri kom  til Frakklands á miðvikudag en um borð þá voru 114 börn og nýir foreldrar þeirra.  

Vetrarhörkur hafa ríkt í Frakklandi undanfarnar vikur og börnin voru vafin í teppi er foreldrar þeirra báru þau frá borði nú í morgun. 

„Mér var ekki tilkynnt fyrr en ég var kominn til Haítí að ég gæti tekið hann heim með mér,“ sagði Ludovic Dehas, með hinn rúmlega tveggja ára gamla Maxime í fanginu. Maxime er nú á leið með foreldrum sínum til nýrra heimkynna í Suður-Frakklandi en þar mun hann í fyrsta sinn hitta systur sínar, Juliu og Marie-Canise.

318 börn hafa með milligöngu franskra stjórnvalda verið ættleidd frá Haítí til Frakklands frá skjálftunum sem urðu fyrir um ári síðan. Börnin voru munaðarlaus fyrir skjálftana en hamfarirnar settu strik í reikninginn og það er ekki fyrr en nú að þau eru komin í hendur franskra foreldra sinna.

Fyrsta verkefni barnanna við komuna til Frakklands í morgun var að fara í ítarlega læknisskoðun en kólerufaraldur hefur geisað á Haítí síðustu vikur.

Foreldrar ganga með ættleiddum börnum sínum á flugvellli í París …
Foreldrar ganga með ættleiddum börnum sínum á flugvellli í París í morgun. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert