Benedikt páfi söng jólamessu í Róm í morgun. Hann bað guð um að „innræta frið í hjörtu okkar“ og einnig að „slíta tengslin við kúgarana“. Um 10 þúsund manns hlýddu á messuna.
Ströng öryggisgæsla var í kringum páfa. Við jólamessu fyrir ári síðan stökk kona yfir öryggislínu og sló til páfa. Að þessu sinni fylgdu öryggisverðir páfa þegar hann gekk inn kirkjugólfið og fylgdust með hvort einhver gerði sig líklegan til að trufla hann.
Benedikt páfi, sem er orðinn 83 ára gamall, stoppaði tvisvar á leiðinni og blessaði börn sem kirkjugestir héldu að honum.
„Við erum þakklát fyrir að guð færði okkur sjálfan sig sem lítið barn, biðjandi um elsku okkar, innrætandi hans frið í hjörtum okkar,“ sagði páfi. „En þessi fögnuður er líka bæn. Almáttugi guð; láttu loforð þitt birtast okkar. Slíttu tengslin við kúgarana. Fargaðu skóm þeirra sem traðka. Láttu tíma hins blóðuga klæðnaðar enda.“
Páfi bætti síðan við: „Hjálpaðu okkur að búa saman eins og bræður og systur svo við getum orðið ein fjölskylda, þin fjölskylda.“
Páfi sagði að hann vonaði að kirkjubjöllurnar næðu að drekkja vopnum þeirra sem berðust í Miðausturlöndum. Kristnir menn vonuðu að Jerúsalem yrði ekki aðeins höfuðborg tveggja þjóða heldur fyrirmynd að sambúð þjóða.
Páfi minntist einnig á árásina á kirkju í Írak í október þar sem meira en 50 manns létust. „Slíkt ofbeldi er fordæmt um allan heim bæði af kristnum mönnum og múslimum.“