Ástralinn Julian Assange, stofnandi uppljóstrunarvefjarins WikiLeaks, hefur skrifað undir samning um að gefa út sjálfsævisögu sína. Að sögn breska blaðsins Sunday Times fær Assange 1,2 milljónir punda fyrir bókina eða jafnvirði um 200 milljóna króna.
Assange segir við blaðið, að hann ætli að nota þessa peninga til að verja sig í málinu, sem rekið er gegn honum í Svíþjóð en þar hefur hann verið kærður fyrir kynferðisbrot.
„Ég vil ekki skrifa þessa bók en ég neyðist til þess. Ég hef þegar eytt 200 þúsund pundum í málið og ég neyðist til að halda uppi vörnum og halda WikiLeaks gangandi," segir Assange.
Hann var handtekinn nýlega í Lundúnum að kröfu Svía en látinn laus gegn tryggingu og bíður þess nú að niðurstaða fáist fyrir breskum dómstólum um hvort hann verður framseldur til Svíþjóðar eða ekki.