Bréfasprengja fannst í gríska sendiráðinu í Róm í dag, eftir að gerð var leit í sendiráðum borgarinnar, þar sem tvær bréfasprengjur höfðu sprungið í sendiráðum Síle og Sviss í borginni fyrir jól.
„Sprengjusérfræðingar eru í þessum töluðu orðum að aftengja sprengjuna og ganga úr skugga um að hún sé eins og þær sem sprungu í síðustu viku,“ segir talsmaður lögreglunnar í Róm.
Hins vegar hefur komið í ljós að pakkar sem taldir voru innihalda sprengjur og fundust í sendiráðum Mónakó og Venesúela, reyndust meinlausir. Einnig reyndist óttinn ástæðulaus í sendiráðum Danmerkur, Svíþjóðar og Úkraínu, þar sem einnig fundust grunsamlegir pakkar.
Sendiherra Grikklands, Michael Cambanis, segir í viðtali við blaðið La Republica að bréfasprengjan hafi komið þangað á Þorláksmessu en að enginn hafi opnað hana vegna þess að fólk var á leið í jólafrí.
Ítalskur hópur anarkista, sem kallar sjálfan sig hið ,,óformlega anarkistasamband", hefur lýst sprengjusendingunum á hendur sér. Lögregla telur að sú yfirlýsing eigi við rök að styðjast.
Anarkistarnir sem um ræður hafa lýst um það bil þrjátíu árásum af þessu tagi á hendur sér á síðustu árum, en fyrsta árásin sem vakti athygli á þeim var sprengja sem sprakk í ruslatunnu við heimili Romano Prodi árið 2003. Prodi var þá yfirmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins en var síðar forsætisráðherra Ítalíu um skamma hríð.