Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að það muni hafa neikvæð áhrif á orðspor Rússlands að þarlendur dómstóll hafi fundið auðkýfinginn Mikaíl Khodorkovskí sekan um fjársvik.
Clinton hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að málið veki upp fjölmargar spurningar um dómskerfið í Rússlandi, og hvernig hægt sé að beita því í pólitískum tilgangi. Hún segir ennfremur að bandarísk stjórnvöld muni fylgjast með áfrýjunarferlinu.
Khodorkovskí og meintur samverkamaður hans, Platon Lebedev, voru sakfelldir fyrir fjársvik og peningaþvætti. Þar með brustu vonir margra frjálslyndra Rússa sem vonuðust til að réttarhöldin yfir þeim myndu sýna rússneska dómstóla í nýju ljósi.
Fleiri ríki hafa gagnrýnt dóminn yfir Khodorkovskí í dag, þar á meðal Frakkland og Bretland. Bresk stjórnvöld voru þó gætin í orðavali en þau hafa að undanförnu reynt að bæta samskiptin við Rússa.