Snjóbylurinn sem herjað hefur á norðausturhluta Bandaríkjanna síðan á sunnudag er nú kominn áleiðis norður til Kanada og loksins er farið að stytta upp sunnan megin landamæranna. Á meðan Bandaríkjamennirnir takast á við afleiðingarnar, lokaða vegi og bíla í vegköntum, sitja Kanadamennirnir fyrir norðan uppi með óveðrið og hafa samgöngur þar legið að miklu leyti niðri í morgun.
Alls var um fimm þúsund flugferðum aflýst allt frá Norður-Karólínu til Maine síðustu tvo daga. Samgöngufyrirtæki segja að líklega verði ekki búið að hreinsa upp flækjuna eftir óveðrið fyrr en á föstudag, en þá tekur við önnur mikil ferðahelgi í kringum áramótin.
Óveðrið lamaði hundruð borga og bæja og björgunarsveitir unnu nótt sem nýtan dag við að bjarga ökumönnum úr vandræðum og meira að segja ein neðanjarðarlestin í New York festist í snjó, þar sem snjóað hafði niður um opnar ristar.
Jafnfallinn snjór var 80 sentimetra djúpur í New Jersey og í Central Park, hinum stóra almenningsgarði á Manhattan-eyju í New York, var jafnfallinn snjór hálfur metri.
Á New York svæðinu eru samgöngur smám saman að komast í samt lag. La Guardia flugvöllur opnaði fyrstur, þá John F. Kennedy, en Newark International var síðastur af hinum þremur stóru flugvöllum til að opna aftur. Engu að síður voru þá miklar tafir á öllu flugi. Einnig hafa verið miklar tafir á lestasamgöngum á milli borga.