„Moka og moka en komast ekkert áfram“

Snjó hefur kyngt víðar en á Borgundarhólmi en víðast hvar …
Snjó hefur kyngt víðar en á Borgundarhólmi en víðast hvar í Norður-Evrópu hefur vetur konungur tekið sér bólfestu. Reuters

Lyf og eldsneyti er af skornum skammti á Borgundarhólmi og hafa yfirvöld óskað eftir aðstoð við að ryðja vegi á eyjunni. Snjó hefur kyngt á eyjunni sem minnir einna helst á skíðasvæði í Ölpunum.

„Þú getur ekki ímyndað þér hversu slæmt ástandið er. Vegirnir eru lokaðir, og þeir moka og moka en komast ekkert áfram,“ segir Helle Skov Olesen, sem er einn af 43.000 íbúum Borgundarhólms, í samtali við danska blaðið Politiken. „Þeir vita ekki hvar þeir eiga að setja snjóinn,“ bætir hún við.

Að sögn dönsku veðurstofunnar mældist jafnfallinn snjór á eyjunni 140 cm. Veðurfræðingurinn Steen Rasmussen segir að það sé svipað magn og sé á vinsælum skíðasvæðum. Það mun snjóa lítillega á eyjunni í dag og þá spáir veðurstofan hægviðri og frosti fram á föstudag. 

Á fimmtudag byrjaði að snjóa mikið á Borgundarhólmi og víða náðu skaflar sex metra hæð. Svo mikið hefur snjóað að yfirvöld hafa gefið sérstakt leyfi fyrir því að snjórinn sé losaður í hafið, sem er bannað. 

Lögreglan á eyjunni hefur óskað eftir að fá send 200 ökutæki til að aðstoða við að ryðja vegina, t.d. flutningabíla, traktora og snjóruðningstæki. Hún er búin að koma upp neyðarþjónustu í Rønne, sem er stærsti bærinn á eyjunni.

Mikið hefur verið að gera hjá lögreglunni sem hefur átt erfitt með að svara spurningum fréttamanna. Fram kemur á vef lögreglunnar að fjölmargar neyðarbeiðnir hafi borist. Óskað hefur verið eftir lyfjum, eldsneyti og dýrafóðri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert