Ekki spurning hvort heldur hvenær

Retuers

Þó svo dönsku leyniþjónustunni hafi í gær tekist að koma í veg fyrir hryðjuverkaárás á Jótlandspóstinn, þá þurfa Danir að búa sig undir að hryðjuverkamönnum takist ætlunarverk sitt á endanum, þ.e. að ráðast á Dani á danskri grundu. Í Berlingske Tidende er í dag rætt við sænska sérfræðinga í varnarmálum sem fullyrða þetta.

Málið sem kom upp í gær er það næsta sem Danir hafa komist því að verða fyrir hryðjuverkaárás hingað til. Fimm menn voru handteknir í Kaupmannahöfn og Stokkhólmi vegna málsins. En að sögn Magnus Ranstorp hjá varnarmálastofnun Svíþjóðar er það ekki spurningin hvort, heldur hvenær hryðjuverkamönnum tekst að gera árás.

„Ég tek ofan fyrir dönsku leyniþjónustunni. Ólíkt leyniþjónustum annarra landa hefur hún ekki látið neitt fara framhjá sér hingað til og þó hafa verið gerðar margar tilraunir til árása. Spurningin er hvort henni tekst að halda þessu áfram, en það mun henni líklegast ekki takast. Það er mikið að gerast þessi dægrin, Skandinavía og Norður-Evrópa virðast vera nafli hryðjuverkastarfsemi í augnablikinu,” segir Ranstorp.

Magnus Norell, sænskur sérfræðingur hjá sænsku rannsóknarstofnuninni í hryðjuverkamálum, tekur í sama streng. „Það er ekkert nýtt að það er samvinna á milli öfgamanna í Danmörku og Svíþjóð. Það eru sterk tengsl og fólk í báðum þessum löndum þarf að fara að venja sig við tilhugsunina um þessar tilraunir til árása. Við höfum haft heppnina með okkur, en þetta fólk mun halda áfram að reyna,” segir Norell.

Þó svo að dönsku og sænsku leyniþjónustunum hafi tekist að afstýra árásinni í gær er enginn vafi á því að hún tókst næstum því. Hinir handteknu höfðu ætlað að láta slag standa fyrir 1. janúar við byggingu Jótlandspóstsins við ráðhústorgið í Kaupmannahöfn og ætluðu sér að „drepa eins marga og mögulegt var” segir Berlingske.

„Þetta er mjög alvarlegt mál. Við stöndum fram fyrir hópi herskárra íslamista, en við vitum líka að þeir tengjast neti af hryðjuverkamönnum í öðrum löndum,” sagði Jakob Scharf, yfirmaður dönsku leyniþjónustunnar á blaðamannafundi í gær.

Mennirnir fjórir, sem handteknir voru í Danmörku í gær, verða leiddir fyrir dómara í Glostrup í dag þar sem krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert