Reyna að fæða fyrir tímann til að fá evrur

Úr myndasafni. Nýfæddir Íslendingar á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans.
Úr myndasafni. Nýfæddir Íslendingar á vöggustofu kvennadeildar Landspítalans. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Margar verðandi mæður á Spáni gera nú allt sem þær geta til að eignast börn sín fyrir tímann. Ástæðan er sú að um áramótin rennur út frestur til þess að fá 2.500 evru eingreiðslu fyrir fæðinguna.

Stjórnvöld á Spáni hafa frá árinu 2007 reynt að örva barneignir með því að borga nýbökuðum foreldrum þessa upphæð, en á fjárlögum næsta árs var þetta afnumið, þar sem ríkisstjórn Spánar reynir nú allt hvað hún getur til að takmarka ríkisútgjöld í kreppunni.

Þær konur sem fæða börn sín á þessum og næsta sólarhring fá upphæðina, en þær sem fæða einni mínútu eftir miðnættið á aðfaranótt nýársdags fá ekkert – nema barnið sitt. Læknar hafa áhyggjur af þessari stöðu.

„Ég þekki lækna sem hafa fengið fyrirspurnir frá foreldrum, jafnvel fólki sem vinnur í félagslega kerfinu, í tilefni af því að 2.500 evru greiðslan kemur ekki til eftir áramót,” segir dr. Francisco Campillo y Arias-Camison, barna- og kvensjúkdómalæknir á einkarekinni læknastofu í Madríd.

Ýmis spjallsvæði á netinu loga nú í umræðum um þetta mál og má þar sjá margs konar tilboð frá fólki sem býður fram ráðgjöf við náttúrulegar aðferðir til að flýta fæðingunni. Þar á meðal má nefna að konum er ráðlagt að þamba trönuberjate eða að ganga upp og niður stiga í sífellu.

„Ef ég gæti flýtt fæðingunni þá myndi ég gera það. Sumt frægt fólk hefur gert það af ástæðum sem tengjast starfi þess og enginn gagnrýnir það fólk fyrir það,” segir ein þunguð kona á spjallsvæði.

En læknar eru á öðru máli. „Að flýta barnsfæðingu fyrir 2.500 evrur er villimennska,” segir Juan Jose Vidal, yfirmaður kvennalækninga á Ruber International Clinic í Madríd. Hann segir undir engum kringumstæðum hægt að ráðleggja fólki að eignast barn fyrir tímann af slíkri ástæðu.

Það myndi valda fæðingarerfiðleikum og mörgum börnum þyrfti að hjálpa sérstaklega, með því að nota hitakassa eða aðrar aðferðir. Það eykur kostnaðinn við fæðinguna mikið og ógnar heilsu barnsins,” segir hann við dagblaðið ABC.

Ljósmóðir á spítala í Sevilla segir að sumar konur reyni að blekkja fæðingarlæknana. „Þær koma inn á spítala og segja að sér blæði úr fæðingarveginum, eða að þær hafi þegar misst legvatnið, þegar það er ekki satt. Þær þora ekki að spyrja hreint út hvort það sé hægt að flýta fæðingunni, en við vitum að þær vilja flýta dagsetningunni,” segir hún við blaðið El País.

Dr. Campillo segir þó að ef fóstrið er meira en 36 vikna gamalt og að „aðstæður” séu réttar fyrir fæðingu, þ.e. að móðir og barn séu líffræðilega tilbúin í fæðinguna, þá sé ekki sérstakt vandamál að framkalla fæðinguna.

„Vandamálið er að ef aðstæður henta ekki og við framköllum fæðingu þá eru miklu meiri líkur á að við þurfum að framkvæma keisaraskurð.” Hann segir líka að fæðingum sé stundum flýtt af ástæðum sem ekki teljast læknisfræðilegar, eftir 36 vikur af meðgöngu. Til dæmis sé hægt að gera það ef faðirinn þarf að fara úr landi eftir þann tíma.

Campillo segir líka að það hafi alltaf verið tilhneiging hjá fólki að fæða fyrir áramót en ekki eftir, því þá fari barnið einu ári fyrr í skóla.

Síðan styrkjakerfið var sett á fót í júlí árið 2007 hefur ein og hálf milljón mæðra fengið eingreiðsluna góðu, að því er fram kemur í ABC. Þrátt fyrir þessa styrki þá lækkaði fæðingartíðni á Spáni á síðasta ári í fyrsta skiptið í heilan áratug, samkvæmt opinberum gögnum sem birtust síðasta sumar. Fjöldi fæðinga lækkaði um 5% frá fyrra ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert