Á sama tíma og íbúar austurstrandar Bandaríkjanna reyna að koma samgöngum í samt lag eftir fellibylinn í kjölfar jólahátíðarinnar glíma íbúar vesturstrandarinnar við mikið hvassviðri og ofankomu. Hratt hefur kólnað í sambandsríkinu vegns kalds loftsmassa frá Alaskaflóa.
Mikill snjór hefur fallið í Washingtonríki og rafmagn farið af á ýmsum stöðum af þeim sökum.
Vindstyrkurinn náði allt að 145 km á klukkustund, eða rúmlega 40 metrum á sekúndu, í sunnanverðri Kaliforníu í gær. Vindhviðurnar rifu upp tré með rótum og lokuðu trjábolir nokkrum götum, að því er fram kemur á vef Los Angeles Times.
Snjólínan, lágmarkshæðin yfir sjávarmáli þar sem snjór getur fallið, er nú 610 metrar í Kaliforníu, en það þykir með minna móti. Varað er við hálku á fjölförnum vegum, eftir að hitastigið féll.
Á vef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN er haft eftir veðurfræðingum að úrkoma í desember muni slá öll met í Kaliforníu.
Skýringin sé fjöldi lægða sem eigi upptök sín undan ströndum sambandsríkisins í Kyrrahafi.
Þá hafi bærinn Highland í San Bernardino-sýslu farið á kaf í vatnselg sem fylgdi skýfallinu, líkt og fleiri bæir í nágrenninu.