1,4 milljarðar í bætur vegna reykinga

Bandarísk kona, sem fékk krabbamein í vélinda, fær að minnsta kosti 12 milljónir dala í bætur, nærri 1,4 milljarða króna, frá tóbaksframleiðandanum R. J. Reynonds. 

Konan, sem heitir Barbara Izzarelli,  býr í New Haven í Connecticut. Hún vann í vor skaðabótamál sem hún höfðaði gegn tóbaksframleiðandanum. Þá voru henni dæmdar 8 milljónir dala og í dag komst dómari að þeirri niðurstöðu, að hún ætti einnig rétt á 3,97 milljónum dala í miskabætur. 

Izzarelli, er 49 ára og reykti Salem sígarettur í rúman aldarfjórðung. Þegar hún var 37 ára gekkst hún undir aðgerð þar sem barkakýlið var fjarlægt. Hún þarf að anda gegnum gat á hálsinum, missti lyktarskynið og getur aðeins neytt fljótandi fæðu.

Kviðdómur í Connecticut komst að þeirri niðurstöðu í vor, að Salem sígaretturnar, sem  R. J.  Reynolds framleiðir, væru hættulegar og fyrirtækið hefði ekki hirt um öryggi neytenda. Því ætti það að greiða  bætur.

Fullyrt var í réttarhöldunum, að Reynolds hefði auglýst Salem sígarettur á áttunda áratug síðustu aldar  sem heppilegar fyrir ungt fólk en jafnframt séð til þess að nægt nikótín væri í sígarettunum til að gera fólk háð tóbaki. 

Fyrirtækið neitaði því hins vegar að hafa reynt að fá ungt fólk til að reykja og benti á að viðvaranir hefðu verið á sígarettupökkunum frá því á sjöunda áratug aldarinnar.  

Kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu, að tjón Izzarelli næmi 13,9 milljónum en að hún bæri sjálf ábyrgð á 42% af tjóninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert