Þjóðverjar hafa stigið út úr efnahagskreppunni í Evrópu sterkari en áður, svo sagði Angela Merkel kanslari Þýskalands í einkar jákvæðu áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar í dag. Atvinnuleysi í Þýskalandi er nú það minnsta sem verið hefur síðan austur og vestur sameinuðust fyrir 20 árum, þrátt fyrir verstu kreppu í 60 ár að sögn Merkel.
Hún þakkaði þessa velgengni evrunni og sagði að sem stærsta hagkerfi Evrópu væri Þýskaland skuldbundið evrunni. „Þrátt fyrir allar áhyggjurnar af efnahagnum þá reyndist þetta vera gott ár fyrir Þýskaland," sagði Merkel. „Við getum öll glaðst yfir einu, aldrei hafa fleiri verið að störfum í sameinuðu Þýskalandi en nú. Við höfum náð því markmiði sem við settum okkur. Við náðum því jafnvel að koma sterkari út úr þessari kreppu. Þetta er umfram allt vegna ykkar framlags, kæru borgarar."
Margir Þjóðverjar trega þýska markið en Merkel sagði í ávarpi sínu að evran væri miklu meira en bara gjaldmiðill. „Sameinuð Evrópa er trygging okkar fyrir friði og og frelsi. Evran myndar grunninn að velferð okkar. Þýskaland þarf á Evrópu að halda og sameiginlegum gjaldmiðli okkar, bæði sjálfra okkar vegna en einnig til að sigrast á erfiðum áskorunum á heimsvísu."