Mótmæli brutust út á Haítí í gær á þjóðhátíðardegi landsins. Mótmælendur eru meðal annars óánægðir með viðbrögð Rene Preval, forseta landsins, við kólerufaraldrinum sem nú gengur um landið.
Hróp voru gerð að forsetanum þegar hann hélt ávarp við hátíðarhöld í gær.
Ástandið á Haítí er enn afar slæmt og víða eru óleyst vandamál eftir jarðskjálftana á síðasta ári sem nánast lögðu allt þjóðlíf í rúst á Haítí.
Mótmæli hafa verið algeng í landinu og þá sérstaklega í höfuðborginni Port-au-Prince. Há fjárframlög sem hafa verið greidd til endurreisnar á Haítí kunna að vera ótryggð vegna óstöðugleika í stjórn landsins.