Rússneski vopnasalinn, Viktor Bout, sem gengur undir heitinu „Sölumaður dauðans", segir að hann hafi hafnað að gera samkomulag við bandarísk yfirvöld í máli sínu. Það hefði þýtt að hann hefði afhent þeim lista yfir helstu viðskiptavini sína.
RIA Novosti birtir viðtal við hinn meinta vopnasala í dag en hann er í fangelsi í New York eftir að hafa verið framseldur til Bandaríkjanna í fyrra frá Taílandi.
Bout sakar bandarísk yfirvöld um að vera í ófrægingarherferð gegn sér og segist hann ekki eiga von á sanngjörnum réttarhöldum í Bandaríkjunum.
„Mér var boðin vægari refsing og styttri fangelsisdómur ef ég myndi segja þeim allt sem ég vissi um tengiliði mína í Rússlandi og öðrum löndum," segir Bout í viðtalinu.
Bout var framseldur í nóvember en hann er ákærður í Bandaríkjunum á grundvelli hryðjuverkalaga. Bout var í haldi í Taílandi í tvö ár en hann er talinn einn helsti vopnasali heims og fyrirmynd kvikmyndarinnar „Lord of War“ með Nicolas Cage.
Bout sagði í réttarsal í Taílandi í fyrra að ræki loftflutninga, en honum er gefið að sök að hafa kynt undir átökum allt frá Afganistan til Sierra Leone með milligöngu um sölu á flugvélum og vopnum.
Í fréttaskýringu sem birt var í Morgunblaðinu í ágúst í fyrra kemur fram að bandarísk yfirvöld tóku fyrir alvöru eftir Bout árið 1999 þegar þjóðaröryggisráðið, NSC, fyrirskipaði rafrænt eftirlit með stjórnvöldum og stríðsherrum á átakasvæðum í Vestur- og Mið-Afríku. Leikurinn barst meðal annars frá Kongó til Líberíu og Sierra Leone. Afrit af samtölum hrönnuðust upp án þess að tækist að greina mynstur þar til greinendur veittu því athygli að eitt nafn virtist alls staðar koma fyrir: Viktor Bout.
Gayle Smith, þá helsti sérfræðingur NSC um Afríku, sendi fyrirspurn um manninn og fékk til baka frá leyniþjónustunni, CIA, stafla af ljósmyndum frá 1996 til 1999 af rússneskum flutningavélum, sem stóðu á flugvöllum hér og þar í frumskógum Afríku og verið var að afferma úr vopn. Á einni þeirra stóð Bout við vopnaflutningavél.
Eins og hér kom fram að framan þá er talið að Bout hafi verið kveikjan að Hollywood-myndinni „Lord of War“. Andhetja myndarinnar slapp undan réttvísinni, en það gerði Bout ekki. Árið 2008 gekk hann í gildru Bandaríkjamanna. Hann var handtekinn á fimm stjörnu Sofitel-hóteli í Bangkok á fundi með bandarískum útsendurum, sem þóttust vera skæruliðar á vegum byltingarsveita Kólumbíu, FARC.
Bout er í ákæru Bandaríkjamanna sakaður um að hafa með því að selja vopn eða hafa milligöngu um sölu þeirra kynt undir átökum og stutt stjórnvöld í Afganistan, Angóla, Kongó, Líberíu, Rúanda, Sierra Leone og Súdan. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Viktor Bout fæddist í Dushanbe, höfuðborg Tadsjikistans, árið 1967 þegar landið var enn undir stjórn Sovétríkjanna. Hann fór í málanám hjá tungumálaskóla hersins og lærði í það minnsta ensku, frönsku og portúgölsku. Hann er sagður tala sex tungumál reiprennandi.
Bout nam því næst hagfræði í háskóla hersins og gekk síðan í flugherinn. Því hefur verið haldið fram að hann hafi verið njósnari leyniþjónustunnar KGB og verið á vegum hennar í Angóla þegar Sovétríkin voru leyst upp árið 1991. Þessu neitar Bout og segist aldrei hafa haft nein tengsl við KGB.