Vöxtur flóðanna hraðari en búist var við

Meiri vöxtur er í flóðunum í Queensland í Ástralíu heldur en gert hafði verið ráð fyrir, samkvæmt yfirvöldum þar. Hafa þúsundir þurft að flýja heimili sín og eru um tuttugu bæir sambandslausir vegna flóðanna. Svæðið sem er umlukið vatni er stærra að flatarmáli heldur en Frakkland og Þýskaland samanlagt.

Fyrr í dag var greint frá því að rúmlega fertug kona hafi látist er bifreið hennar varð fyrir flóðbylgju. Tveggja er saknað og er talið líklegt að þeir hafi einnig orðið flóðunum að bráð.

Í borginni Rockhamton, þar sem 77 þúsund búa, hefur flóðið ekki náð hámarki en því er spáð að vatnshæðin verði níu metrar á morgun og 9,4 metrar á miðvikudag. Óttast er að um fjögur þúsund heimili geti orðið flóðunum að bráð í borginni. Flugvelli borgarinnar hefur verið lokað þar sem allar flugbrautir eru umluktar vatni. Eins eru allar helstu samgönguleiðar til og frá borginni, bæði járnbrautateinar og þjóðvegir lokaðir vegna vatnselgsins. 

Á vef BBC kemur fram að óttast sé að tjónið af völdum flóðanna hlaupi á milljörðum Ástralíudala.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert