Fuglar drápust líklega úr hræðslu

Svartþröstur.
Svartþröstur.

Dýralæknar telja nú líklegast, að um 5000 svartþrestir, sem féllu dauðir niður af himninum á smábæ í Arkansas í Bandaríkjunum á nýárskvöld, hafi drepist úr hræðslu.

Íbúi í bænum Beebe í Arkansas segist hafa heyrt um 20 háa hvelli skömmu áður en fuglarnir byrjuðu að falla til jarðar. Talið er að um hafi verið að ræða flugelda eða hugsanlega skot úr fallbyssu sem hafi átt að fæla fugla í burtu. Sagðist maðurinn hafa gengið út úr húsi sínu og séð hóp trylltra fugla fljúga hjá.

Dýralæknirinn  George Badley hafði eftir manninum, að hann hefði heyrt vængjaslátt svartþrastanna og að þeir flugu á hluti. Svartþrestir sjá illa í myrkri og hafa væntanlega drepist þegar þeir flugu á hús og tré á flótta undan hvellunum.

Bradley segir, að gerðar verði rannsóknir á fuglshræjunum til að ganga úr skugga um hvernig þeir drápust og hvort þeir hafi verið haldnir sjúkdómum. 

Fleira gekk á í dýraríkinu í Arkansas um helgina. Fundust hundruð þúsunda fiska dauð í Arkansasá, um 160 km  frá Beebe á gamlársdag. Embættismenn telja líklegt að  fiskarnir hafi drepist úr einhverjum sjúkdómi því aðeins var um eina fiskategund að ræða, svonefnda vartara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert