Tilfinningagreind fólks nær hámarki um sextugt sem aftur er talið skýra hvers vegna fólk á þeim aldri er næmara en yngra fólk. Þetta kemur fram í nýrri bandarískri rannsókn en hún byggði á tilraun með 144 þátttakendum á nokkrum æviskeiðum.
Robert Levenson, sálfræðingur við Kaliforníu-háskóla í Berkeley og einn aðstandenda tilraunarinnar, skýrir niðurstöðuna í ljósi þróunar.
„Þróunin virðist hafa stillt taugakerfi okkar á þann veg að það nær hámarki hvað snertir samskipti og samúðarríka framkomu eftir því sem við eldumst.“
Niðurstöðurnar eru birtar í fræðiritinu Psychology and Ageing, en þær þykja einnig sýna að eldra fólk eigi auðveldara með að sjá neikvæða hluti í jákvæðu ljósi en þeir sem yngri eru.