Vísindamönnum á vegum kínverskra stjórnvalda hefur tekist að endurnýta kjarnorkuúrgang til raforkuvinnslu. Þekktar úranbirgðir landsins eru taldar duga til 70 ára að óbreyttu en í 3.000 ár ef nýju aðferðinni er beitt, að því er fram kemur í kínverskum ríkisfjölmiðlum.
Fjallað er um málið á vef breska útvarpsins, BBC, en þar segir að Kínastjórn sé nú að byggja þrjú kjarnorkuver þar sem raforkuvinnsla með umræddri tækni muni fara fram.
Vísindamennirnir hafa unnið að þróun tækninnar í 24 ár en hún kemur sér afar vel fyrir Kínastjórn og viðleitni hennar til að stuðla að aukinni fjölbreytni í orkuöfluninni.