Barack Obama Bandaríkjaforseti sneri til Washington í dag eftir jólaleyfi á Hawaí. Á fundi með fréttamönnum um borð í forsetavélinni biðlaði hann til repúblikana á þingi um að ýta pólitíkinni til hliðar og sameinast um að koma bandarísku efnahagslífi í gang.
Obama sagði að stóra verkefnið væri að skapa næg störf og gera bandarískt efnahagslíf samkeppnishæft fyrir 21. öldina. Repúblikanaflokkurinn hefur meirihluta í fulltrúadeild bandaríska þingsins og meirihluti demókrata í öldungadeildinni hefur minnkað. Sagði Obama jafnframt, og beindi orðum sínum til leiðtoga repúblikana, að nægur tími væri til að undirbúa kosningar á næsta ári. Á þessu ári þyrfti að halda áfram endurreisn efnahagslífsins.