Kínverjar hafa aðeins notað 65% af sementinu sem þeir hafa framleitt á síðustu fimm árum, að teknu tilliti til útflutnings. Þá framleiða þeir sjöfalt meira stál en þjóðirnar sjö sem næst koma á listanum samanlagt og er framleiðsla umfram eftirspurn í Kína nú 200 milljónir tonna á ári.
Þetta kemur fram í greiningu vogunarsjóðsstjórans Mark Hart sem býður fjárfestum að veðja mér sér á að kínverska hagvaxtarbólan springi með hvelli. Heitir bólusjóðurinn China Opportunity Master Fund og er Hart svo sannfærður um að fjárfestingin muni borga sig, að hann er tilbúinn til að brenna árlega 20% af fénu sem hann leggur í sjóðinn þar til kenning hans fær staðist, að því er fram kom í Daily Telegraph nýverið.
Máli sínu til stuðnings bendir Hart á að í Kína sé nú að finna 3,3 milljarða fermetra af ónotuðu húsnæði. Þrátt fyrir það hægi verktakar ekki á sér heldur byggi enn um 200 milljónir fermetra af húsnæði umfram eftirspurn.
Víða í Kína hefur fasteignaverð hækkað stöðugt og telur Hart einsýnt að fasteignabólan í Kína muni springa. Svokallaður leigu/kaupverðsstuðull standi nú í 39,4, samanborið við 22,8 rétt áður en fasteignabólan í Bandaríkjunum sprakk.
Þegar rætt er um skuldastöðu þjóðríkja er því gjarnan haldið fram að kínverska ríkið skuldi aðeins um fimmtung þjóðarframleiðslunnar.
Hart er þessu ósammála og telur útfrá greiningu sinni að skuldirnar séu í raun fimmfalt hærri, eða um 107% af þjóðarframleiðslu. Því muni kínverska ríkið ekki geta sótt í digra sjóði til að bjarga illa stöddum bönkum eftir að bólan springur.