Grænlandsjökull bráðnaði mikið á síðasta ári. Breskur jöklafræðingur, Alun Hubbard, sem dvaldi í fimm mánuði á jöklinum síðastliðið sumar greindi frá niðurstöðum sínum í samtali við BBC. Hann varar við því að jökullinn „hörfi og þynnist mjög mikið“.
Dr. Alun Hubbard er jöklafræðingur við Aberystwyth háskóla. Hann hafnar kenningum annarra sérfræðinga um að jökullinn kunni að hverfa innan fimm áratuga. Hubbard telur að minnst 100 til 1.000 ár líði áður en jökullinn rýrni svo mjög að hann eigi sér ekki viðreisnar von.
Hubbard stýrði 15 manna rannsóknarhópi frá háskólunum í Aberystwyth og Swansea sem dvaldi á Grænlandsjökli í fimm mánuði síðastliðið sumar. Hópurinn kom á jökulinn í maí sl. og sló upp tjaldbúðum uppi á jöklinum um 112 km frá jökulröndinni. Þeir mældu þykkt jökulsins, hraða jökulskriðsins, könnuðu veður og annað með aðstoð ratsjáa, skjálftamæla og annarra tækja jarðvísindamanna.
Vísindamennirnir komust að því að hækkandi lofthiti olli mikilli bráðnun á nýjum stöðum ofarlega á jökulhettunni. Þetta olli því að um tvöfalt meira leysingavatn rann frá jöklinum en sumarið áður í hafið. Bráðni jökullinn allur kann sjávarborð heimshafanna að hækka um 7 metra.
Hubbard sagði að niðurstöður mælinganna síðastliðið sumar sýni svo ekki verði um villst að bráðnun jökulsins valdi hækkun sjávarborðs. Hann sagði einnig að hnattræn hlýnun - að minnsta kosti hlýnun á Grænlandi - hafi verið „verri en nokkru sinni áður“. Methiti hafi verið í Grænlandi og á Norðurheimskautssvæðinu í fyrra.
Hubbard hyggst fara aftur ásamt hópi vísindamanna á Grænlandsjökul á þessu ári til að fylgjast með þróuninni. Rannsóknir þeirra eru liður í stærra verkefni með þátttakendum frá háskólunum í Bristol, Cambridge, Edinborg auk háskóla í Danmörku, Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.