Robert Ter Horst, yfirdýralæknir í Västra-Götaland í Svíþjóð, telur að fuglarnir sem fundust dauðir í bænum Falköping í gærkvöldi hafi drepist úr hræðslu. Þetta kemur fram á vef norska blaðsins Verdens Gang.
Ter Horst telur að sumir fuglanna hafi beinlínis drepist úr hræðslu en aðrir verið svo lamaðir af hræðslu að þeir hafi ekki fært sig af götunni þegar bílar nálguðust og orðið fyrir bílunum.
Dýralæknirinn telur nokkrar samverkandi ástæður fyrir hræðslu fuglanna. Miklir kuldar undanfarið, matarskortur og flugeldar um áramótin hafi allt átt þátt í að fuglarnir urðu hræddir. Hann lagði áherslu á að hræ dauðra fugla hafi verið send í rannsókn og að dýralæknar útiloki ekki neinar dánarorsakir. Flest bendi þó til þess að fuglarnir hafi drepist úr hræðslu.
Bílstjóri gerði dýralækninum viðvart um klukkan 23 í gærkvöldi og sagði að hann hafi keyrt yfir marga fugla. Samkvæmt upplýsingum VG sáust ekki nein ytri ummerki á flestum fuglanna. Yfirdýralæknirinn telur að um 40-50 fuglar hafi drepist í Falköping.