Íbúar Rockhampton krefjast vista

Rockhampton.
Rockhampton. DANIEL MUNOZ

Nokkrir íbúar borgarinnar Rockhampton í Ástralíu, sem er á mesta flóðasvæðinu, neita að yfirgefa borgina og krefjast þess að björgunarfólk komi til þeirra vistum. Borgarstjórinn kallar fólkið óábyrgt. 

Dregið hefur úr flóðunum og hefur vatnsyfirborðið farið lækkandi. Þó er hætta á svokölluðu skyndiflóði sem gæti gert ástandið verra. Fjöldi fólks hefur yfirgefið heimili sín sökum hættuástandsins en nokkrir neita að fara. Þeir sem ákváðu að halda sig heima krefjast þess nú að björgunarfólk komi til þeirra vistum og hefur borgarstjórinn Brad Carter gagnrýnt það. „Við höfum tekið ákvörðun og gert það ljóst að við getum ekki stefnt björgunarfólki í hættu með því að reyna að koma vistunum til skila. Þetta fólk verður að virða og skilja að þar sem það tók þessa ákvörðun getur það ekki fengið meiri aðstoð eða matvörur sem björgunarsveitir útvega. Ef þetta fólk vill halda sig heima þá er það þeirra ákvörðun, við neyðum það ekki burt.“

Carter lýsti yfir óánægju sinni með að fólkið hefði hunsað viðvaranir þar sem fólk var hvatt til að fara að heiman og kallaði það óábyrgt.

David Peff, lögreglustjóri Rockhampton, segir að flóðunum hafi fylgt eitraðar slöngur, krókódílar og moskítóflugur sem geti borið sjúkdóma. Það sé afar hættulegt fyrir björgunarfólk að vaða í vatninu, sem stundum nái því upp á brjóstkassa, og óttast hann að það geti borið skaða af. Hann styddi því ákvörðun borgarstjórans um að hjálpa ekki þeim, sem ákváðu að halda sig heima, að fá mat og aðrar vistir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert