Verðbólga í þróuðum hagkerfum lækkaði í 1,8% í nóvember úr 1,9% í október síðastliðnum, að sögn Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Könnun OECD náði til allra 34 aðildarlanda stofnunarinnar. Lækkun verðbólgunnar er einkum rakin til lækkandi orkuverðs.
Þegar matvæli, sem sveiflast mikið í verði, og orkuverð voru tekin út úr útreikningunum hækkaði neysluverðsvísitala í 1,2% í nóvember en hún var 1,1% í október sl. Verðbólga í Bandaríkjunum lækkaði í 1,1% á tólf mánaða tímabili í nóvember en var 1,2% í október.
Verðbólga í Japan lækkaði í 0,1% í nóvember en hún hafði mælst 0,2% í október og var það í fyrsta skipti í 20 mánuði sem verðbólga mældist þar í landi.
Verðbólga lækkaði einnig í Kanada í 2% í nóvember en hún hafði mælst 2,4% í október. Verðbólgan í október hafði þá ekki mælst hærri síðan í október 2008.
Í Bretlandi hækkaði verðbólgan í 3,3% í nóvember úr 3,2% í mánuðinum á undan. Verðbólga á 12 mánaða tímabili á evrusvæðinu hélst í 1,9% og er það sama niðurstaða og hjá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Verðbólga í Þýskalandi hækkaði í 1,5% í nóvember úr 1,3% í október sl. Hún hélst stöðug í Frakklandi, 1,6%, og á Ítalíu þar sem hún var 1,7%.