Niðurstöður rannsóknar á menguðu dýrafóðri í Þýskalandi leiddu í ljós að díoxín í fóðrinu mældist 77 sinnum yfir leyfilegum mörkum. Búið er að loka um 4.700 þýskum bóndabæjum í Slésvík Holstein eftir að mengunarinnar varð vart.
Upphaflega varð mengunarinnar aðeins vart í Þýskalandi. Síðar kom í ljós að díoxínmenguð egg voru flutt frá Þýskalandi til Hollands, og þaðan til Bretlands.
Stjórnvöld í Suður-Kóreu hafa stöðvað innflutning á þýsku svína- og kjúklingakjöti.
Rannsókn er hafin í Þýskalandi og beinist hún m.a. að fóðurfyrirtækinu Harles und Jentzsch.
Sé matvara með miklu magni af díoxín neytt í talsverðan tíma getur það valdið alvarlegum skaða á heilsu manna.