Til að reyna að draga úr umferðarteppu og mengun í Peking í Kína hafa borgaryfirvöld ákveðið að takmarka hversu marga nýja bíla má selja í borginni í hverjum mánuði.
Aðeins 20 þúsund ný bílnúmer verða gefin út í hverjum mánuði og er tekið við umsóknum fyrstu átta daga hvers mánaðar. Yfir 215 þúsund manns sóttu um bílnúmerin sem verður úthlutað í janúar og verður dregið úr umsóknunum 26. janúar. Hinir heppnu fá því bílnúmer og öðlast þar með rétt til að kaupa nýjan bíl.
Samkvæmt þessum nýju reglum, sem tóku gildi 1. janúar sl., verða því aðeins 240 þúsund nýir bílar skráðir í ár í Peking. Í fyrra voru þeir 800 þúsund. Kippur varð í sölu nýrra bíla í desember þegar ljóst var að reglurnar myndu taka gildi um áramótin. Fyrstu vikuna í desember seldust 20 þúsund bílar en á sama tíma árið á undan voru þeir 9 þúsund.
Andrúmsloftið í Peking er eitt hið mengaðasta í heimi. Í desember voru 4,8 milljónir bíla skráðir þar í borg. Þar myndast því einnig gjarnan umferðarteppur og var met slegið eitt kvöld í september þegar lögreglan var kölluð til vegna 140 umferðarhnúta víðsvegar um borgina.