Um 800.000 íbúar á Haítí búa enn í flóttamannabúðum, ári eftir að öflugur jarðskjálfti olli gríðarlegri eyðileggingu í landinu að sögn Alþjóðlegu mannflutningastofnunarinnar (International Organization for Migration), sem er stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þeim hefur þó farið ört fækkandi á undanförnum mánuðum.
Stofnunin segir að ein og hálf milljón íbúa hafi misst heimili sín þegar skjálftinn reið yfir þann 12. janúar 2010. Í september sl. bjó enn um 1,3 milljónir í búðunum og hefur þeim farið ört fækkandi að undanförnu. Í nóvember var talan komin niður fyrir eina milljón í fyrsta sinn frá því hamfarirnar dundu yfir.
Fólk yfirgefur nú flóttamannabúðirnar af ýmsum ástæðum. M.a. vegna vonskuveðurs og kólerufaraldurs. En einnig vegna þess að fólk hefur fundið aðra staði til þess að búa á til frambúðar.
Búið er að aðstoða yfir 200.000 fórnarlömb, m.a. með því að reisa ný hús, kaupa byggingarefni til að gera við hús sem skemmdust og þá hafa íbúar fengið fjárhagsaðstoð.
Um 810.000 manns búa nú í 1.150 flóttamannabúðum í Port-au-Prince og nálægum héruðum, skv. könnun sem hefur verið framkvæmd.