Bandaríska þingkonan Gabriell Giffords berst nú fyrir lífi sínu, en hún var skotin í höfuðið fyrir utan matvöruverslun í Tucson í Arizona í gær. Árásarmaðurinn, sem hefur verið handtekinn, myrti sex manns og særði 12. Grunur leikur á að hann hafi haft vitorðsmann, sem lögreglan leitar nú.
Kosið var til þings í nóvember sl. og telja sumir að árásin tengist kosningabaráttunni, sem þótti óvenju hörð, neikvæð og rætin.
Gifford, sem er fertugur þingmaður demókrata, er enn í lífshættu. Læknar telja hins vegar að ágætar líkur séu á því að hún lifi árásina af.
Lögreglan rannsakar nú málið. Ekki er vitað hvers vegna árásarmaðurinn, hinn 22 ára gamli Jared Lee Loughner, hóf að skjóta á fólkið, sem mætti á pólitískan viðburð sem Giffords hafði skipulagt í borginni.
Meðal þeirra sem létust voru níu ára gömul stúlka og alríkisdómari. Loughner skaut á fólkið af stuttu færi og hætti ekki fyrr en vegfarendur náðu að yfirbuga hann.
Bandaríkjaþing frestaði atkvæðagreiðslu um endurbætur á heilbrigðiskerfinu vegna málsins, en hún átti að fara fram síðar í vikunni.
Clarence Dupnik, lögreglustjóri í Pima-sýslu, segir telur að árásarmaðurinn hafi ekki verið einn að verki. Ætlunin hafi verið að skjóta Giffords.
Dupnik segir að árásarmaðurinn hafi hótað að myrða fólk, en að hótanirnar hafi ekki beinst gegn Giffords. „Það eina sem ég get sagt ykkur er að þessi einstaklingur á mögulega við geðræn vandamál að stríða.“
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur falið Robert Mueller, forstjóra bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), það verkefni að stjórna rannsókninni. Obama hefur fordæmt árásina.
Giffords var skotin einu skotið í höfuðið. Að sögn lækna fór kúlan í gegnum höfuð hennar og heila. Læknirinn sem framkvæmdi aðgerðina á henni er hæfilega bjartsýnn á að hún muni ná bata. Óvíst sé hversu mikill hann verði.
Giffords var að ræða við kjósendur í Tuscon þegar árásin var gerð. Maðurinn kom aftan að henni og skaut á hana af um eins metra færi.