Íranskur lögfræðingur í 11 ára fangelsi

Nasrin Sotoudeh.
Nasrin Sotoudeh.

Þekktur íranskur lögfræðingur sem sérhæfir sig í mannréttindum, Nasrin Sotoudeh, hefur verið dæmdur í 11 ára fangelsi og verið bannað að starfa sem lögfræðingur og yfirgefa landið næstu 20 árin.

Eiginmaður Sotoudeh, Reza Khandan, sagði AFP fréttastofunni frá þessu í dag. „Lögfræðingi konunnar minnar var sagt í gær að hún hefði verið dæmd til 11 ára fangelsisvistar og bannað að vinna sem lögfræðingur og yfirgefa Íran næstu 20 árin. Þetta er alveg ótrúlegt.“

Hann segir að Sotoudeh, sem hefur verið í fangelsi síðan í september, hafi verið fundin sek um að ógna þjóðaröryggi, fyrir áróður gegn ríkisstjórninni og fyrir að tilheyra mannréttindasamtökum Shirin Ebadi, sem hlotið hefur friðarverðlaun Nóbels.

Ásakanirnar gegn Sotoudeh voru að miklu leyti byggðar á viðtölum sem birtust við hana í erlendum miðlum. Þar ræddi hún um skjólstæðinga sína sem voru fangelsaðir eftir umdeildar forsetakosningar árið 2009. Sotoudeh var lögfræðingur Ebadi, sem yfirgaf Íran að kvöldi kosninganna, og Issa Saharkhiz, blaðamanns og aðstoðarmanns andófsmannsins Mehdi Karroubi, og Heshmat Tabarzadi, lýðræðissinna.

„Hún talaði um málin sem hún var að vinna í og sagði almenningnum stundum frá göllum málsins. Hún móðgaði engan og var aldrei of gagnrýnin. Þetta er ekki glæpur,“ segir eiginmaðurinn. „Hvar í heiminum er móðir fangelsuð fyrir að veita nokkur viðtöl?“ bætti hann við en þau hjón eiga tvö börn.

Fjöldi fólks utan Íran hefur haft samband við yfirvöld í landinu og krafist lausnar Sotoudeh eftir að hún var fangelsuð 4. september sl. en henni var haldið í einangrun þar til hún var leidd fyrir dómara 15. nóvember. Þá var hún í hungurverkfalli í nokkrar vikur eftir handtökuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert