Jerry Brown, nýr ríkisstjóri Kalíforníu, fyrirskipaði í kvöld að helmingur þeirra starfsmanna Kalíforníuríkis, sem hafa haft farsíma á kostnað ríkisins, verði látinn skila þeim. Alls greiðir ríkissjóður Kalíforníu símreikninga fyrir 96 þúsund starfsmenn en sú tala verður lækkuð í 48 þúsund fyrir júní.
„Það er erfitt að trúa því, að 40% allra starfsmanna ríkisins þurfi að nota farsíma, sem Kalífornía greiðir fyrir," sagði Brown, sem tók við embættinu af Arnold Schwarzenegger um áramótin. Brown hefur heitið því að skera hressilega niður í ríkisrekstrinum.
Með því að fækka símum starfsmanna sparast 20 milljónir dala á ári. Hann hefur einnig tilkynnt, að laun ríkisstarfsmanna verði lækkuð um 8-10% og skorið verði niður í velferðarkerfi, heilsugæslu og þjónustu við fatlaða og skattar verði hækkaðir tímabundið. Fylla þarf 25 milljarða dala fjárlagagat í Kalíforníu.