Hæstiréttur Danmerkur hefur komist að þeirri niðurstöðu, að hópur Dana geti höfðað mál á hendur Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, vegna þess að danska þingið staðfesti Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins án þess að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fyrst fram um málið.
Að sögn Ritzau fréttastofunnar telur hópurinn, að þetta sé brot á dönsku stjórnarskránni.
Málið var höfðað fyrir Eystri-Landsrétti í Danmörku árið 2008 en dómstóllinn vísaði málinu frá á þeirri forsendu, að málsaðilar hefðu ekki lögmæta hagsmuni að verja. Hæstiréttur var hins vegar þeirrar skoðunar, að Lissabon-sáttmálinn hefði það almenn áhrif á aðildarríki ESB að þeir sem höfðuðu málið hefðu umtalsverða hagsmuni af því að fá niðurstöðu í málinu.
Hæstiréttur komst að svipaðri niðurstöðu árið 1996 þegar Evrópusambandið samþykkti Maastricht-sáttmálann. Þá taldi dómurinn að hópur Dana gæti höfðað mál til að fá úr því skorið hvort sáttmálinn bryti í bága við 20. grein dönsku stjórnarskrárinnar, sem heimildar danska Folketinget að afsala valdi til alþjóðlegra stofnana, svo sem Evrópusambandsins, að uppfylltum ströngum skilyrðum.