Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hvatti í dag til þess að bandarískir stjórnmálamenn og fréttaskýrendur, sem standa fyrir ofstækisfullri orðræðu, verði sóttir til saka. Vísaði Assange til skotárásarinnar á bandaríska þingmanninn Gabrielle Giffords í Arisona um helgina.
Í yfirlýsingu, sem Assange sendi frá sér, segir að margt sé líkt með orðræðunni, sem ýmsir telja að hafi leitt til árásarinnar á Giffords, og þeirra ásakana sem beinst hafa að honum sjálfum og öðrum sem starfa fyrir WikiLeaks.
Bent hefur verið á, að Giffords var meðal frambjóðenda demókrata, sem myndir voru birtar af á korti af Bandaríkjunum á vef Söruh Palin, fyrrverandi varaforsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, á síðasta ári. Yfir myndirnar höfðu verið sett tákn fyrir krossmið í byssusjónauka en Palin taldi rétt að losna við viðkomandi af þingi vegna vinstrisinnaðra skoðana.
Giffords er í lífshættu eftir að hafa fengið skot í höfuðið. Sex létu lífið í skotárásinni en árásarmaðurinn, 22 ára gamalla karlmaður sem hefur þjáðst af geðtruflunum, var handtekinn. Lögreglustjórinn í Tucon í Arisona sagði um helgina, að harðar ásakanir, sem beinst höfðu gegn Giffords vegna stjórnmálaskoðana hennar, væru til þess fallnar að æsa upp þá, sem ekki gengju heilir til skógar andlega.
Í yfirlýsingu Assange segir, að starfsmenn WikiLeaks og aðrir sem tengjast vefnum, hafi einnig sætt hörðum árásum frá stjórnmálamönnum og fréttaskýrendum í Bandaríkjunum í kjölfar þess að vefurinn fór að birta bandaríska sendiráðspósta.
Meðal þeirra, sem hafa gagnrýnt WikiLeaks er Palin, sem hvatti til þess að Assange yrði eltur uppi líkt og talibanar.
„Engin samtök berjast harðar fyrir málfrelsi en WikiLeaks en þegar háttsettir stjórnmálamenn og athyglissjúkir fjölmiðlamenn hvetja til þess að tilteknir einstaklingar eða hópar verði drepnir þá ætti að ákæra þá fyrir að hvetja til morða," segir Assange í yfirlýsingunni. „Þeir sem hvetja til morða deila sök með þeim sem lyfta byssu og taka í gikkinn."
Assange sagði, að WikiLeaks hefði gripið til víðtækra öryggisráðstafana til að vernda starfsfólk sitt. Assange mun í dag koma fyrir rétt í Lundúnum þar sem fjallað verður um kröfu sænskra stjórnvalda um að framselja hann til Svíþjóðar vegna ásakana um að hann hafi framið þar kynferðisbrot. Hann neitar sök.