Vísað úr landi fyrir að selja hvaltennur

Búrhvalur.
Búrhvalur.

Dómari í Boston í Massachusetts vísaði í gær 39 ára gömlum Úkraínumanni úr landi í Bandaríkjunum eftir að maðurinn viðurkenndi að hafa selt búrhvalstennur   til útskurðarmanns á Nantucket-eyju.

Fjallað er um málið á vef Boston Globe í dag. Úkraínumaðurinn, sem heitir Andriy Mikhalyov, hefur setið undanfarna 9 mánuði í gæsluvarðhaldi vegna málsins en hann játaði að hafa tekið þátt í að smygla miklu magni af hvaltönnum til Bandaríkjanna. Slíkur innflutningur var bannaður með lögum árið 1972.

Charles Manghis var á síðasta ári fundinn sekur um að skipuleggja innflutning á hvaltönnum. Að sögn blaðsins keypti Manghis tennurnar af Mikhalyov fyrir háar fjárhæðir á árunum 2002 til 2005.  Manghis skar síðan mynstur í tennurnar en það er listgrein sem á rætur að rekja til hvalveiðitímans á Nantucket.

Blaðið segir að Manghis hafi haft vel upp úr handverkinu. Hann var meðal annars beðinn um að skera innsigli bandaríska forsetaembættisins í tennur fyrir þá feðga og fyrrverandi Bandaríkjaforseta George H.W. Bush og George W. Bush.  

Fram kemur, að starfsmenn bandarísku alríkislögreglunnar hafi blekkt Mikhalyov til að koma til Bandaríkjanna á síðasta ári með því að lofa honum vinnu sem túlkur. Um leið og hann steig út úr flugvél í Seattle í mars var hann handtekinn.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert