Helmingi af öllum fiski sem veiddur er í Norðursjó, nær milljón tonnum á ári, er kastað fyrir borð, segir Hugh Fearnley Whittingstall baráttumaður gegn gengdarlausu brottkasti og rányrkju. Hann hefur hafið „fiskistríð“ og safnar undirskrifum á áskorun til forystumanna Evrópusambandsins í sjávarútvegsmálum.
Í kvöld höfðu meira en 83 þúsund manns skrifað undir áskorunina sem send verður til Maria Damanaki, fiskveiðistjóra ESB, nefndarmanna sem endurskoða sameiginlegu fiskveiðistefnuna og allra þingmanna á Evrópuþinginu. Undirskriftunum fjölgaði stöðugt.
Í Bretlandi gengur þessi herferð undir heitinu Hugh's Fish Fight (Fiskistríð Hughs). Sjónvarpsstöðin Channel4 sýndi í gærkvöldi fyrsta þáttinn af þremur sem Hugh Fearnley Whittingstall gerði um fiskveiðar og fiskeldi.
Fyrstu þátturinn snerist um þá gengdarlausu sóun á sjávarafla sem fer fram í Norðursjó. Hann segir að þar fari um milljón tonn af fiski fyrir borð á hverju ári. Einnig mun Hugh fjalla um fiskeldi og fleiri atriði sem snúa að sjávarfangi í síðari þáttunum tveimur.
Hugh fór á sjó með trollbáti út á Norðursjó og sýndi hvernig sjómennirnir stóðu við aðgerðarkassann og hirtu skötusel, ýmsan flatfisk og annað sem kallað hefði verið tros en hentu vænum þorskum, ýsu og fleiri tegundum á færiband sem flutti fiskinn að lensporti þar sem besti aflinn fór í sjóinn.
Sjómennirnir bölsótuðust út í sjávarútvegsstefnuna og Hugh lýsti megnri vanþóknun á þessari sóun á verðmætum meðan fólk sylti heilu og hálfu hungri. Hann fékk sjávarútvegsráðherra Breta með sér á fiskmarkað í London og lofaði ráðherrann því að berjast með kjafti og klóm gegn þessari sóun og brottkastinu.
Ráðherrann fullyrti að þessum reglum yrði breytt með nýrri sjávarútvegsstefnu ESB árið 2012. Í lokin bað Hugh ráðherrann að tegundargreina nokkrar algengar fisktegundir og reyndist ráðherrann breski varla þekkja ýsu frá þorski og ekki þekkti hann lúðu en var alveg klár á skötuselnum.