BAA, rekstrarfyrirtæki nokkurra stærstu flugvalla Bretlands, segir að tafirnar sem urðu á flugi vegna snjókomunnar í desember hafi kostað 24 milljónir punda (um fjóran og hálfan milljarð króna).
Veðrið olli miklum flugröskunum og hafði áhrif á ferðaáætlanir mörg þúsund farþega. Heathrow og fleiri flugvöllum var lokað tímabundið vegna veðurs.
BAA segir að alls hafi 7,2 milljónir farþega farið um flugvellina sex sem fyrirtækið rekur í Bretlandi í desember. Það er 10,9% samdráttur á milli ára. BAA segir að fækkunina megi rekja nánast að öllu leyti til veðurs.