Eiturlyfjastríð og ofbeldi tengt eiturlyfjum í Mexíkó, kostaði 15.273 manns lífið á nýliðnu ári.
Aldrei áður hafa jafn margir látið lífið af þessum völdum í landinu, en forseti Mexíkó, Felipe Calderon, blés til sóknar gegn skipulögðum glæpum fyrir nokkrum árum, án sýnilegs árangurs.Hann hefur meðal annars rekið hundruðir lögreglumanna, sem sakaðir hafa verið um spillingu.
Yfir helmingur morðanna áttu sér stað í þremur norðlægum ríkjum, eitt þeirra er Chihuahua, þar sem mesta glæpaborg landsins, Ciudad Juarez, er staðsett. Hin fylkin eru Tamaulipas og Sinaloa.
Síðustu helgi fundust fimmtán afhöfðuð lík fyrir utan verslunarmiðstöð í Acapulco og var ódæðisverkið rakið til stríðs á milli eiturlyfjasala.
Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við AFP fréttaveituna að áður hefðu glæpamenn drepið lögreglumenn til að senda yfirmanni lögreglunnar skýr skilaboð, en nú væru yfirmenn lögreglunnar eða borgarstjórar myrtir til að koma skilaboðum á framfæri.
Það sem af er þessu ári hafa tveir bæjarstjórar verið myrtir í Mexíkó.