Breska blaðið Guardian sagði frá því í gærkvöldi, að annar breskur lögreglumaður hefði laumað sér í raðir aðgerðasinna sem staðið hafa fyrir mótmælaaðgerðum víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Fyrr í vikunni upplýsti blaðið, að breskur lögreglumaður, Mark Kennedy, hefði verið í röðum aðgerðasinna í sjö ár og aflað upplýsinga um þá.
Um er að ræða konu, sem í fjögur ár starfaði innan raða aðgerðarsinna í Leeds og aflaði upplýsinga um aðgerðir þeirra. Guardian segir, að Kennedy hafi í október veitt sex aðgerðasinnum upplýsingar um konuna og hafi yfirmenn í bresku lögreglunni áhyggjur af öryggi hennar.
Konan fór frá Leeds árið 2008. Guardian segist vita nafn hennar en hafi ákveðið að birta það ekki.
Kennedy er sagður vera í felum í útlöndum og að hann hafi nú lýst stuðningi við málstað aðgerðasinna. Guardian segir, að Kennedy hafi í vikunni verið sakaður um að hafa átt í kynferðislegum samskiptum við aðgerðasinna á meðan hann var í dulargervi og að háttsettir lögreglumenn segi að slík framkoma sé óviðunandi.
Kennedy ferðaðist til 22 landa á meðan hann tók þátt í starfi aðgerðasinna. Fram kom í vikunni, að hann hefði meðal annars tekið þátt í mótmælaaðgerðum Saving Iceland við Kárahnjúka árið 2005.
Guardian segir, að talið sé að nokkrir lögreglumenn í dulargervi hafi laumað sér í raðir umhverfisverndarsinna og veitt sérstakri njósnadeild bresku lögreglunni upplýsingar.