Lögreglan í Bangladess hefur handtekið leiðtoga hóps sem aflimar börn og leigir þau síðan til betlara.
Maðurinn var handtekinn í gær, í úthverfi Dhaka sem er höfuðborg landsins. Hann hefur viðurkennt að hann og félagar hans hafi aflimað að minnsta kosti 15 börn í þeim tilgangi að leigja þau út til betlara, sér í lagi kvenna, sem segjast vera mæður barnanna og afla þannig meiri peninga.
Einnig viðkenndi hann að þeir hefðu nauðgað stúlkum til að neyða þær til að stunda vændi.
Algengt leiguverð fyrir barn, sem vantar á útlim, er um sex Bandaríkjadollarar á dag.
Athygli var vakin á þessu, eftir að mennirnir skáru getnaðarlim sjö ára drengs af honum, en faðir hans lét mannréttindasamtök á staðnum vita.
Samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2005 eru 700.000 betlarar í Bangladess og að meðaltali þéna þeir um einn og hálfan Bandaríkjadollara á dag.