Flóð eru nú farin að herja á Ástrali sem búa syðst í landinu. Í dag voru um 14.000 íbúðarhús umflotin vatni eftir að ár flæddu yfir bakka sína í Victoria ríki. Um 3.500 íbúar höfðu flúið heimili sín. Nú eru nokkrir dagar síðan flóðin tóku að sjatna í norðausturhluta Queensland.
Íbúðarhúsin í Victoria voru umflotin mittisdjúpu vatni sem ruddi niður girðingum og trjágróðri og skemmdi vegi. Þetta landsvæði varð illa úti í skógareldum fyrir tveimur árum og fórust þá 173 manns. Flóð af því tagi sem nú herja á svæðið koma að jafnaði um einu sinni á öld.
Hermenn aðstoðuðu íbúana við að yfirgefa heimili sín. Í sumum bæjum reyndi fólk að stafla upp sandpokum til að verja heimili sín. Flóðin eru afleiðing gríðarmikilla rigninga en þarna rigndi jafn mikið á einum til tveimur dögum og rignir á heilu misseri í venjulegu árferði.