Mikil umræða er nú í Finnlandi um stöðu sænsku og hvort tungumálið eigi áfram að vera skyldufag í skólum landsins.
Finnski stjórnmálafræðingurinn Pasi Saukkonen segir í samtali við finnska dagblaðið Helsingin Sanomat að gjarnan sé litið hornauga á þá sem hafa sænsku að móðurmáli.
Enn leifi eftir af gömlum viðhorfum um Svía sem herraþjóð. Í grein Helsingin Sanomat kemur fram að áður hafi stór hluti af almannaþjónustu í Finnlandi verið á tungumálunum tveimur, en nú sé það nánast úr sögunni.
„Sé tekið mið af umræðunni, mætti halda að sænsku- og finnskumælandi Finnar lifi í sitthvoru landinu. Margir þeirra, sem hafa finnsku að móðurmáli eiga engin samskipti við þá sem tala sænsku,“ segir Saukkonen. „Sænskumælandi Finnar liggja undir því ámæli að þykjast betri en aðrir og að vera ekki nógu þjóðlegir. “