Deila um stækkun björgunarsjóðs

Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands. AP

Wolfang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, gagnrýnir Jose Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins fyrir að kalla eftir stækkun björgunarsjóðs fyrir evrusvæðið. Með því sé hann að flækja þann vanda sem löndin á svæðinu standa andspænis.

„Einangraðar tillögur gera ekkert til að einfalda stöðuna, heldur flækja hana þvert á móti,“ sagði Schäuble í samtali við þýska útvarpsstöð. Ummælin lætur hann falla þegar stutt er í fund fjármálaráðherra evrusvæðisins í Brussel.

Schäuble segist ekki sjá þörfina á að stækka sjóðinn í fyrirsjáanlegri framtíð.

Írar hafa þegar fengið aðstoð frá sjóðnum, og óttast er að Portúgal, Spánn, Belgía og jafnvel Ítalía gætu leitað eftir aðstoð í kjölfarið. Sjóðurinn kunni því að vera of lítill.

Þetta er sjónarmið Barroso, sem segir Þjóðverja þurfa að bera virðingu fyrir starfi framkvæmdastjórnarinnar. „Það er ekki einungis réttur okkar, heldur beinlínis skylda, að segja íbúm Evrópu hvað við teljum vera rétt,“ sagði hann við þýska blaðið Spiegel.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert