Forseti Kína heimsækir Bandaríkin

Fjögurra daga opinber heimsókn Hu Jintao, forseta Kína, til Bandaríkjanna hófst í gærkvöldi með kvöldverðarboði í Hvíta húsinu. Að sögn fréttaskýrenda er um að ræða mikilvægustu heimsókn kínversks leiðtoga til Bandaríkjanna á síðari árum í ljósi þeirra vaxandi áhrifa, sem Kínverjar hafa. 

Samskipti þjóðanna tveggja hafa verið heldur stirð upp á síðkastið og þær hafa deilt um ýmis mál,  svo sem gjaldeyrismál, viðskiptamál, mannréttindi og Taívan. Gert er ráð fyrir að Hu og Barack Obama muni ræða um þessi málefni á fundi síðdegis og einnig um kjarnorkuumsvif Norður-Kóreu. 

Flugvél Hu lenti á Andrews herflugvellinum við Washington í gærkvöldi. Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, tók þar á móti kínverska forsetanum.  Hann mun í dag eiga fund með Obama í Hvíta húsinu og sitja þar kvöldverðarboð í kvöld. Síðar í vikunni fer Hu til Chicago  og er talið að hann muni þar undirrita viðskipta- og iðnaðarsamninga við bandarísk fyrirtæki.

Hópur fólks mótmælti stefnu Kínverja í málefnum Tíbet framan við Hvíta húsið í Washington í gærkvöldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert