Stjórnvöld í Bretlandi hafa bannað bandaríska öfgamanninum og prestinum Terry Jones að koma til Bretlands og vísa til þess að heimsókn hans gangi gegn almannahagsmunum.
Terry Jones er leiðtogi örlítils safnaðar í Flórída en Jones varð alræmdur í september sl. þegar hann tilkynnti áform um að brenna fjölmörg eintök af Kóraninum. Jones hætti síðar við bókabrennuna.
Hægri-öfgasamtökin English Defence League höfðu boðið Terry Jones að flytja ræðu á samkomu þeirra í Bretlandi. Samtökin drógu síðar boð sitt til baka en Jones hafði engu að síður í hyggju að fara til Bretlands og greindi frá því að hann hefði í hyggju að skipuleggja samkomu í London.
Talsmaður innanríkisráðuneytisins í Bretlandi benti á að ríkisstjórnin væri andvíg hvers konar öfgastefnum. Fjöldi dæma væru til um óásættanlega hegðun Terry Jones.