Finnsk stjórnvöld kynntu í frumvarp um að banna ágengt betl til þess að bregðast við fjölda Róma-fólks sem betlar á götum úti. Lögin myndu gefa lögreglu rétt til þess að sekta betlara og rífa niður tjaldbúðir.
Sumir mannréttindafrömuðir í Finnlandi benda á að lögin mismuni Róma-fólki beint en stjórnvöld víðar um Evrópu hafa reynt að setja svipuð lög undanfarið.
Samkvæmt lögunum getur lögregla sektað betlara ef þeir hóta fólki, grípa í föt þess, stöðva för gangandi vegfarenda eða sýna af sér einhverja aðra ágenga hegðun.
Þá verður ólöglegt að setja upp tjaldbúðir ef þær eru taldar trufla almannareglu eða séu hættulegar af heilsufarsástæðum. Má lögregla taka þær niður ef íbúar þeirra neita að gera það sjálfir.
Engu að síður er tillagan nú hófsamari en upphaflegar tillögur starfshóps um málið en þar var lagt til að allt betl yrði gert ólöglegt.
„Eftir tillögur starfshópsins var málið rætt á meðal dóms- og félagsmálaráðherra. Niðurstaðan var sú að við vildum ekki banna betl með öllu, aðeins ágengt betl,“ sagði Tiina Nuutinen talskona ríkisstjórnarinnar.
Í lok nóvember tóku borgaryfirvöld í Helsinki niður ólöglegar tjaldbúðir Róma-fólks frá Rúmeníu og hverjum fyrir sig 300 evrur auk ferjumiða og eldsneytis til þess að fara heim til sín.
Fyrir áratugi þekktist betl varla á götum Finnlands en á undanförnum árum hefur það orðið algengt, sérstaklega í Helsinki. Talið er að um 200 betlarar séu í Finnlandi og meirihluti þeirra Róma-fólk frá Rúmeníu.