Ríkissjónvarpið í Túnis sagði í morgun að 33 ættingjar Zine al-Abidine Ben Ali, fyrrverandi forseta landsins, hefðu verið handteknir þegar þeir ætluðu að fara úr landi.
Sjónvarpið sýndi myndir af úrum, skartgripum og alþjóðlegum kreditkortum sem lagt var hald á í húsleitum hjá ættingum forsetans. Sjálfur flúði Ben Ali land sl. föstudag.
Rannsókn hófst á því í gær hvort Ben Ali og fjölskylda hans hefðu stolið ríkiseigum.
Fouad Mebazaa, sem gegnir forsetaembætti í Túnis til bráðabirgða, flutti sjónvarpsávarp í gærkvöldi og hét því að teknir yrðu upp nýir stjórnarhættir, dómskerfið yrði sjálfstætt og takmarkanir á frelsi fjölmiðla afnumdar.
Ný ríkisstjórn, sem tók við í vikunni, tilkynnti jafnframt að allir pólitískir fangar hefðu verið látnir lausir.