Fimm ráðherrar í ríkisstjórn Írlands hafa sagt af sér og er búist við að sá sjötti muni brátt bætast í hópinn. Upplausnarástand hefur ríkt á írska þinginu.
Í nótt var það staðfest að fjórir ráðherrar hafi sagt af sér. Þeir bætast í hóp Micheal Martin sem sagði skilið við stjórnina í fyrrdag.
Búist er við að Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, muni brátt kynna nýja ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin samþykkti í fyrra að óska eftir alþjóðlegri fjárhagsaðstoð til að koma hagkerfinu á réttan kjöl. Síðan þá hefur stuðningur við ríkisstjórnina minnkað verulega. Gengið verður til kosninga á Írlandi í vor.
Stjórnarandstæðingar kröfðust þess í dag að forsætisráðherrann myndi mæta í þingsal til að svara því hverjir stýri ráðuneytunum sex. Tekist var hart á þetta í þinginu og fór svo að gert var 15 mínútna fundarhlé.
Eamon Gilmore, leiðtogi Verkamannaflokksins, segist aldrei hafa séð annað eins undanfarin 20 ár þar sem „við vitum ekki hvort við erum með starfandi ríkisstjórn, og hverjir sitji í ríkisstjórninni.“