Kínverjar hyggja ekki á heimsyfirráð né hafa þeir áhuga á vopnakapphlaupi. Þetta sagði Hu Jintao, forseti Kína, í opinberri heimsókn sinni í Bandaríkjunum í dag. Þá bað hann Bandaríkjamenn um að virða fullveldi Kínverjar í málefnum Taívan og Tíbets.
„Við tökum ekki þátt í vopnakapphlaupi né ógnum við neinu landi hernaðarlega. Kína mun aldrei sækjast eftir heimsyfirráðum eða reka útþenslustefnu,“ sagði forsetinn eftir viðræður við Barack Obama Bandaríkjaforseta.
Þá varaði hann við að afskipti Bandaríkjamanna af málefnum Taívan og Tíbets gætu valdið spennu í samskiptum ríkjanna. „Þegar við skoðum sögu samskipta okkar þá sjáum við að sambandið milli Kína og Bandaríkjanna vex og dafnar þegar ríkin tvö fara vel með málefni sem koma við helstu hagsmunamálum hvors annars,“ sagði Hu.
„Annars verða sífelldir árekstrar í samskiptum okkar og jafnvel spenna. Taívan og Tíbet eru málefni sem snerta fullveldi Kína og einingu landsvæðis okkar og eru meginhagsmunamál Kína.“